Auðlegðin og liljur vallarins

Í augum flestra Íslendinga er náttúran okkar dýrmætasta auðlegð. Fiskimiðin, hafið, jöklar og víðernið. Sé hún virt og vegsömuð ber hún ávöxt og færir íbúum þessa lands auð um ókomin ár. Ef af auðlegðinni er tekið óbærilega rýrna verðmætin og ár og aldir tekur að koma hlutunum í samt lag. Allir vita að landið var skógi vaxið við landnám, að veiði á bolfisk fór yfir hálfa milljón tonna eftir stríð en er allt nú svipur hjá sjón. Uppspretta alls auðs sem frá mannlegum höndum kemur er hógværðin, vinnusemi, áræðni og forsjálni en þegar það allt er tekið í burtu er aðeins eftir landauðn og afætufiskar. Liljur vinstri manna eru ekki síður órannsakanlegar og birtast með ýmsu móti. Margir hafa köllun til lífstíðar og enn aðrir fá hana þegar kreppa knýr á dyr.

Texta ársins hefur skolað á land í umfjöllun um kvikmynd úr Kjósinni, Liljur vallarins sem fjallar um Gunnar Kristjánsson prófast að Reynivöllum.

„ Liljur vallarins fjallar um stórar spurningar – um Guð, tilgang lífsins og hvernig menn eiga að haga lífi sínu. Þessar spurningar eru settar fram í raunverulegu umhverfi í fámennri sveit, þar sem sköpunarverkið blómstrar – menn, dýr og náttúra.“

Séra Gunnar er helsti prédikari íslensku kirkjunnar og uppáhalds tilvitnunarhöfundur vinstri manna á Íslandi, hann segir í útvarpsmessu: „Trú Gamla testamentisins, eins og hún birtist í lexíu þessa dags, einkennist af harðri og eindreginni varðstöðu um mannúð og réttlæti, smælinginn er í brennipunkti, réttur ekkjunnar skal ekki fyrir borð borinn, hlutur munaðarleysingjans skal varinn til hins ýtrasta, hinir tómhentu fá uppreisn æru.“….

„Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja, hungraða hefur hann fyllt gæðum en látið ríka tómhenta frá sér fara.“„Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna.“

Vatnaliljur Monets eru tákn um fegurð, kyrrstöðu og angurværð sem menn falla fyrir. Þær hrekja meistara reiðinnar á braut og veita náð og miskunn þeim er vonsviknir eru, þreytir af endalausri þrautagöngu og niðurlægju sem þeim hefur verið sýnd af meðreiðarsveinum er fóru með vötnum. Hversu oft höfum við ekki hrifist af liljum við árfarveg, við lækjartítlu, í hrauni eða sandrifi þar sem ekki var von á neinu nema grásteini. Í víðerninu þegar síst er von á litadýrð spretta liljur og skarta sínu fegursta meðan sól er hæst á lofti. Á næsta ári hafa þær tekið sér bólfestu í nýju landi , langt í burtu eða fræ þeirra eru komin djúpt í sandinn og bera ekki ávöxt það árið. Fegurstu liljur sem skrifari hefur augum litið gekk hann fram á ofan við jökullitaðan Þaralátursós gegnt eyðibænum Þaralátursfirði. Fagurgrænar perlur í uppsprettulind, norður á hjara veraldar birtust eins og draumadís á öxl einni skammt frá Óspakshöfða. Þar sem harðbýlast er og óblíðir vindar blása eru mestu undrin.

Allir vildu Lilju kveðið hafa. Munkurinn Eysteinn Ásgrímsson skrifar helgirit og verður landsþekktur á augabragði. Höfuðskáldin hafa ekki látið sitt eftir liggja. Ásta Sóllilja í Sjálfstæðu fólki er líklega þekktust íslenskra Lilja. Auðlegðin birtist í ljóði Gunnars Gunnarssonar skálds, um liljur vallarins þegar hann yrkir um tilvistarkreppu:

"Bölvaða líf! . . . sértu skapað af einhverjum guði, er þér stýrir, þá er það illur guð, vanmáttugur guð, heimskur guð! En það er ekki til neinn guð . . . enginn Guð! . . . enginn guð! . . . Hverju þjónar það, að þið komið með lilju vallarins og segið: sjá, Guð hefur skapað hana . . . er hún ekki dásamleg? . . . og tákn um almætti hans?Ég segi: nei! nei! nei! Því hafi hann skapað lilju vallarins, þá hefur hann einnig skapað grimmar ófreskjur sjávarins! Hafi hann skapað hið góða, þá hefur hann einnig skapað hið illa! Vilji hann stundum það, sem við kölluð gott, þá vill hann ekki sjaldnar það, sem við nefnum illt. Og góður guð . . . algóður guð . . . getur ekki viljað illt! Og hið illa getur ekki heldur átt sér stað án hans vilja . . . ef hann er almáttugur!En það er aðeins hugarburður, að til sé slíkur guð! Sá Guð, er við trúum á . . . eða ímyndum okkur að við trúum á . . . er guð, er við sjálf höfum gjört okkur . . . Það er að segja: forfeður okkar; villimenn og siðleysingjar! Nei, það er enginn Guð til! Að minnsta kosti enginn guð, sem við þekkjum og skiljum; enginn guð, er við getum trúað á, beðið til, lotið . . . þrælar sem við erum!Nei, lífið . . . lífið! - aftur var hann að því kominn að missa vald á hugsunum sínum. - Lífið er einungis strönd, sem okkur öllum skolar upp á og bíðum þar skipbrot . . . hvert á sinn hátt! Lífið leikur sér að okkur eins og slóttug bylgjan . . . brosir við okkur til þess eins að gera fallið, örvæntinguna, enn meiri. Öll erum við ekkert nema sjórekin lík! . . . Sjórekin lík . . . á strönd . . . lífsins."                              Strönd lífsins 1915


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Ágæt lesning. Takk fyrir.

Björn Birgisson, 25.12.2010 kl. 17:18

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

Þakka þér Björn. Stórskemmtilegt bloggið þitt og ummæli þín um Séra Baldur Vilhelmsson. Margir guðsmenn leyna á sér og hafa tekið við hlutverki munka og nunna sem styrktu menn með bæn og veittu leiðsögn um mannlega troðninga.

Sigurður Antonsson, 26.12.2010 kl. 09:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

sigurfang.blog.is

Höfundur

Sigurður Antonsson
Sigurður Antonsson
Sprotamaður í fyrirtækjarekstri. Áhugamaður um stjórnmál og viðskiptamál, leikhús og listir.
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • 20170304 172602
  • 20170304 172528
  • 20170304 172216
  • DSC_0007
  • Birdseye-09.05.2016 nett-2000x1126
  • Birdseye-09.05.2016 nett-2000x1126
  • Kindur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband