Auðlegðar- eða stóreignaskattur

Ótrúlegar skattakúnstir eru sýndar með hækkun á “auðlegðarskatti“ sem áður hét stóreignaskattur og var aflagður. Í fyrsta lagi er nafngiftin misvísandi. Það þykir engin auðlegð að hafa komið yfir sig húsi í norðlægu landi á langri starfsævi. Þegar hjón hafa að auki náð að eignast húsnæði að hluta til undir atvinnustarfsemi eru 100-150 milljónir ekki umtalsverðar eignir. Það getur verið þjónustu eða fiskvinnslu og iðnaðarhús. Með nafngiftinni er skatturinn tengdur við þjóðarauðlegðina fiskimiðin því margir vinstri menn trúa því að þar sé skattstofn að finna. Skatturinn á hinsvegar ekkert skylt við sægreifana og þeir sem högnuðust af útrásinni hafa fyrir löngu losað landfestar.

Það þarf líka mikla hugmyndaauðgi til að hækka skattinn um meir enn 100% á milli ára, en viðmið hans var lækkað úr 120 milljón niður í 93 milljónir hjá hjónum og enn neðar hjá einstaklingum. Síðan er skatturinn hækkaður úr 1.25 % í 1.5 %. Hér er því um að ræða 128% hækkun á milli ára hjá hjónum sem eiga eignir sem nema 150 milljónum. Margar ekkjur og ellilífeyrisþegar munu nú þurfa að greiða stóran hluta ellilífeyrisins í þennan nýja skatt nái þau ekki að selja eignir sínar. Skatturinn er áætlaður um 5 milljarða tekjustofn árið 2011 en var um 2.5 milljarða árið 2010. Vandséð er hvort hann eigi ekki eftir að skila sér í ríkissjóð eins og áætlað er, því endimörk eru á allri skattheimtu samanber minnkandi innkomu af tóbaks og áfengissköttum.

"Auðlegðarfólkið" á óhægt um vik að selja eignir í árferði sem nú ríkir til að greiða skattinn. Hann er algjörlega óháður því hvort tekjur eru af eigninni eða ekki. Hann er því eignarupptaka á lífeyrissparnaði fjölda atvinnurekenda og fjáreignaskattur á sparnað. Hann bætist ofan á fasteignaskatt á eignir sem oft standa auðar og mynda engar tekjur. Margt af greiðendum er millistéttarfólk sem hefur með aðhaldssemi og sparnaði eignast eignir á langri ævi. Það mótmælir ekki eða fer hátt með skoðanir sínar en reynir að bregðast við aðför skattheimtuþingmanna með ró meðan forystumenn ríkisstjórnarinnar útmálar það sem auðmenn.

Ríkisstjórnarflokkarnir báðir bera ábyrgð á þessari nýju skattheimtu. Einn þremenninga VG sem fóru frá skattaborðinu í vandlætingu áður en fjárlög voru samþykkt hafði á orði að ekki væri nóg að gert til að ná lúxuss af eignafólki. Innan raða VG eru þingmenn sérmenntaðir í erlendum kreppum en það er eins og þeir hafi ekkert lært af mistökum manna í skattlagningu hér áður fyrr. Sömu þingmenn virðast ekki hafa neinn úræði til að skapa önnur störf en þau sem fást með skattlagningu.

Stóreignaskattar eftirstríðsáranna 1950 0g 1957 er raunasaga skattlagningar á miðlungs eignir eftir að eignakönnun hafði verið gerð. Hún bitnaði á mörgum sjómanninum sem hafði unnið samviskusamlega á stríðsárunum við að afla gjaldeyristekna og árlega greitt tekjuskatta. Margir þeirra höfðu komið yfir sig íbúð eða húsi eða áttu einhverja peninga í banka, en þurftu nú að verjast innheimtumönnum sem sóttu hart að þeim fyrir ráðdeildina. Sérstaklega man ég eftir aflaskipstjóra í götunni minni. Hann var með stóra fjölskyldu og hafði stundað sjómennsku öll stríðsárin, átti orðið hæð og ófullgerðan kjallara í fjórbýlishúsi. Reglulega komu ábúðarfullir lögheimtumenn til að skrifa upp eignir, taka lögtak og leggja drög að uppboði, á meðan skipstjórinn var á úti á sjó. Sem barni fannst mér þessi uppákoma ógnvekjandi því fjölskyldurnar óttuðust að missa eignir sínar og voru áhyggjufullar, ekki síst börnin sem ekki skildu eignakönnun, lögtök eða uppboð. Þegar börn hans uxu úr grasi og höfðu hlotið menntun urðu þau öll opinberir starfsmenn. Ég spurði son hans hverju þetta sætti því karlinn hafði ávallt verið fylgjandi einkaframtaki, þá sagði hann mér að mamma sín hafi ávallt sagt við þau að öruggast væri starfa hjá hinu opinbera sem og þau gerðu.

Löggjafinn skapar fordæmi með vafasamri lagasetningu. Við sjáum að bæjarfélög telja að þau geti farið inn á sömu braut í álagningu gjalda. Ekki viljum við vera á lista meðal bananalýðvelda en dropinn holar steininn. Sparnaður og ráðdeild hafa ekki valdið hruni fjármálakerfis en óígrundaðar ráðstafanir í skattamálum geta leitt til annars hruns og landflótta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

sigurfang.blog.is

Höfundur

Sigurður Antonsson
Sigurður Antonsson
Sprotamaður í fyrirtækjarekstri. Áhugamaður um stjórnmál og viðskiptamál, leikhús og listir.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • 20170304 172602
  • 20170304 172528
  • 20170304 172216
  • DSC_0007
  • Birdseye-09.05.2016 nett-2000x1126
  • Birdseye-09.05.2016 nett-2000x1126
  • Kindur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband