26.2.2017 | 13:26
Forkastanlegur úrskurður um málefni Erlu. "Mál í litlum kössum"
Allir aðrir dæmdir sakborningar fá að njóta vafans. Niðurstaða nefndarinnar veikir trúverðugleika hennar og flækir málið. Einkenni íslenskra lögfræði, mál í litlum kössum án tilliti til stóra samhengisins, segir Ragnar Aðalsteinsson verjandi Erlu í morgunverðaþætti. Hann segir jafnframt að íslenskir dómarar tjái sig of lítið um mál og lögfræði miðað við önnur lönd. Það leiði til þess að erfitt sé fyrir dómstóla og kerfið að viðurkenna mistök.
Vönduð umfjöllun Morgunblaðsins um úrskurði Endurupptökunefndar sýnir furðulega afstöðu nefndarinnar til máls Erlu Bolladóttur. Eftir að hafa sagt að allir aðrir sakborningar hafi "mögulega" verið rangt dæmdir er niðurstaðan sú að ekki skuli tekið upp mál Erlu. Hún er þar með útilokuð með að fá bætur fyrir illa meðferð frá íslenska ríkinu?
Umfjöllun á Mbl.is: Endurupptökunefnd segist m.a. í úrskurði sínum telja raunhæfan möguleika á því, að þær rannsóknaraðferðir, sem beitt var undir stjórn Karls Schütz, eftir að rannsóknin beindist að Guðjóni, og aðrir dómfelldu höfðu borið um aðild hans að málinu, hafi átt þátt í því að hann hætti að treysta eigin minni og játaði aðild að atlögu að Geirfinni.
Telur endurupptökunefnd að í mörgum atriðum hafi vantað upp á að Guðjón nyti þess margvíslega vafa, sem uppi var um málsatvik og að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
Því sé fullnægt skilyrðum endurupptökuheimilda í lögum um meðferð sakamála. Veitir endurupptökunefnd því leyfi á grundvelli sömu laga til að þessi þáttur málsins verði tekinn til meðferðar og dómsuppsögu að nýju í Hæstarétti.
Í úrskurði nefndarinnar kemur m.a. fram það mat nefndarinnar, að verulegar líkur séu á að andlegt ástand Kristjáns hafi verið orðið svo bágborið síðustu mánuði ársins 1976 og framan af árinu 1977, vegna langrar einangrunarvistar og persónubundinna eiginleika hans, að vafasamt sé hvort skýrslur frá þeim tíma um yfirheyrslur yfir honum hjá lögreglu og fyrir dómi hafi haft nokkurt sönnunargildi.
Til marks um slæma andlega heilsu hans megi nefna tvær sjálfsvígstilraunir á þessum tíma og framburð hans um að hafa orðið tveimur mönnum til viðbótar að bana og að amma hans hafi tekið þátt í að hluta annað líkið í sundur. Í dómi Hæstaréttar sé ekki vikið að áhrifum fjölmargra, mótsagnakenndra og ólíkindalegra framburða Kristjáns og bágborins andlegs ástands hans á mat á trúverðugleika framburða hans. Virðist hann ekki hafa fengið að njóta þess vafa sem að þessu leyti var til staðar um sönnunargildi játninga hans.
Telur nefndin að samanburður og heildarmat á nýjum gögnum og upplýsingum, þar á meðal um málsmeðferð við rannsókn og dómsmeðferð, og þeim gögnum sem lágu fyrir Hæstarétti, hafi varpað nýju ljósi á svo mörg atriði í sönnunarmati hvað varðar meint brot Alberts, að telja verði að hin nýju gögn hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins hvað Albert varðar ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk. Telur endurupptökunefnd að í mjög mörgum atriðum hafi vantað upp á að Albert nyti þess margvíslega vafa sem uppi var um málsatvik og að verulegar líkur hafi verið leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
Nefndin taldi þóknun Guðjóns Ólafs Jónssonar, hæstaréttarlögmanns og talsmanns Alberts, hæfilega ákveðna 6.138.000 krónur.
Þá sé það til þess fallið að valda nokkrum vafa um trúverðugleika játninga Tryggva Rúnars, að hann virðist að jafnaði aðeins hafa fallist á atriði sem aðrir dómfelldu höfðu þegar borið um og fátt lagt til málanna um atburðarásina. Þá dró hann játningu sína formlega til baka við fyrsta tækifæri eftir að dómsmeðferð hófst en nokkru áður hafði hann upplýst verjanda sinn og rannsóknarlögreglumann um að hann hygðist gera það.
Endurupptökunefnd komst að þeirri niðurstöðu að Erla Bolladóttir hefði ekki sýnt fram á það að skilyrði væru til endurupptöku máls hennar.
Erla var á sínum tíma m.a. dæmd í þriggja ára fangelsi, m.a. fyrir að bera þær röngu sakir á Einar Gunnar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns Einarssonar og smyglbrotum. Erla var einnig dæmd fyrir fjársvik og önnur tengd brot en ekki var óskað endurupptöku dóms Hæstaréttar vegna þeirra brota.
Í úrskurði nefndarinnar, sem birtur var í gær, segir m.a. að Erla hafi eingöngu verið sakfelld fyrir rangar sakargiftir í samræmi við ákæru dagsetta 16. mars 1977 en sýknuð fyrir Hæstarétti af allri aðild að refsiverðri háttsemi í tengslum við hvarf Geirfinns Einarssonar.
Þegar Erla bar rangar sakir á tvo nafngreinda menn í fyrsta sinn 23. janúar 1976 hafði hún verið frjáls ferða sinna í 34 daga, frá 21. desember 1975 til og með 23. janúar 1976. Þegar hún bar sakir á tvo aðra menn, 3. febrúar 1976, hafði hún verið frjáls ferða sinna í 44 daga. Engin gögn liggi fyrir um að Erla hafi verið knúin eða hvött til þessara röngu sakargifta af rannsakendum eða öðrum. Röksemdir um áhrif einangrunar og skort á aðgangi að verjanda geti því ekki átt við eða stutt endurupptökubeiðni.
Er það mat endurupptökunefndar að Erla hafi ekki sýnt fram á að skilyrði laga um meðferð sakamála til endurupptöku séu uppfyllt.
Í úrskurði endurupptökunefndar kemur jafnframt fram að hún telji þóknun talmanns Erlu, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, hæfilega ákveðna 10.334.900 krónur. Er sú þóknun greidd úr ríkissjóði.
Harðneskjuleg einangrun hafði áhrif | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
sigurfang.blog.is
Bloggvinir
- hekla
- sighar
- thjodarskutan
- esgesg
- tilveran-i-esb
- rabelai
- krisjons
- stinajohanns
- kreppan
- jonvalurjensson
- jennystefania
- elinerna
- photo
- vulkan
- kermit
- ipanama
- svavaralfred
- robertb
- olafurjonsson
- josira
- bookiceland
- kristjan9
- shv
- aslaugfridriks
- stjornuskodun
- don
- arkimedes
- einarborgari
- apalsson
- jobbi1
- postdoc
- geiragustsson
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.