Grindarskörð, Draugahlíðar og Gaudi

Gekk í humátt á eftir kvöldgönguhópnum upp Grindarskörðin. Göngufólkið var komið hálfa leið upp þegar ég lagði af stað frá þjóðveginum. Gerði mér vonir um að ná þeim upp í Skörðunum, en þegar þangað var komið voru þau horfin inn í þokuna. Áleiðis að Hvirfli hæsta fjalli Lönguhlíðar. Á leiðinni mætti ég nokkrum göngumönnum sem voru á niðurleið. Þeim fannst ekki spennandi að ganga í þoku. Var þeim samála um að hver og einn færi á vit sinna ævintýra eftir bestu getu.

Þrjú hundruð metra hækkun var að baki. Gekk áfram niður að Selvogsgötu sem er vel troðin og vörðuð í stað þess að beygja vestur í átt að Hvirfli. Eftir 20 mínútna göngu létti þokunni, en allar hæðir voru umlyktar skýjum. Draugahlíðar komu betur í ljós og því ásetti ég mér að ganga þær upp á hæsta stein. 

Þegar upp var komið var ekki nægilegt útsýni og hópurinn hvergi sjáanlegur. Settist ég þá niður og fékk mér vökva. Öll matarlist var horfin og þarna sat ég dágóða stund einn með álfum og draugum. Þeir hafa verið af besta tagi þennan eftirmiðdag því allt í einu hvarf þokan og ég sá fyrir neðan mig draumaland.

Vesturmynd Draugahlíðar var sem ævintýraland elddrottningarinnar. Hraungígar og mosagróið land. Dúnmjúkur ljós gulgrænn mosi sem birtist með hvítum og svörtum tilbrigðum. Litadýrðin var ótrúleg, samspil grábláa hraunsins, gjóskusteinar sem voru ljósrauðir og ótal afbrigði af mosa. Vætan í loftinu og snjórinn gerði allt tilkomumeira. Gekk niður fönnina og kom niður á hinn þykka mjúka mosa sem maður ber ósjálfrátt lotningu fyrir. Náttúruteppi sem hefur verið samviskulega ofið í meir en þúsund ár.

Margar álfakirkjur má hér finna, furðusmíð íslenskra náttúru í líkingu við margar "Sagrada Familia" Gaudis. Steinborgir í Grindaskörðum eru tilkomumiklar og gaman að ganga þar fram ótroðnar slóðir. Klifra niður steinklappir og láta sig detta niður í bratta fönnina. Sjá kvöldsólina hverfa út við Snæfellsjökull. Allt borgarsvæðið er undir, en næst dökkrautt Húsfell og Helgafell, Þríhnúkahraun. Í norðausturátt er Þríhnúkahellir. Alstaðar dýrgripir sköpunarverksins sem kynslóðir eiga eftir að uppgötva og njóta. 


mbl.is Veðurfræðingurinn ryksugaði himininn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

sigurfang.blog.is

Höfundur

Sigurður Antonsson
Sigurður Antonsson
Sprotamaður í fyrirtækjarekstri. Áhugamaður um stjórnmál og viðskiptamál, leikhús og listir.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • 20170304 172602
  • 20170304 172528
  • 20170304 172216
  • DSC_0007
  • Birdseye-09.05.2016 nett-2000x1126
  • Birdseye-09.05.2016 nett-2000x1126
  • Kindur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband